Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðirnir stofna sjóð sinn í næsta mánuði

Stofnfundur að Fjárfestingarsjóði Íslands, sem lífeyrissjóðirnir standa að, mun að öllum líkum verða um miðjan næsta mánuð. Jafnframt er ljóst að stofnfé sjóðsins muni verða í kringum 50 milljarðar kr.

Arnar Sigurmundsson formaður Landssamtaka lífeyrissjóðanna segir að vonir hafi verið bundnar við að stofnfundurinn yrði haldinn í þessum mánuði en það hafi ekki reynst unnt. Hver og einn lífeyrissjóður þarf að fjalla um málið hjá sér og ákveða framlag sitt í sjóðinn.

„Við viljum vanda okkur við þetta mál enda er það nauðsynlegt," segir Arnar. „Þar að auki höfum við verið í sambandi við Fjármálaeftirlitið með ráðgjöf í tengslum við stofnun sjóðsins."

Hvað varðar önnur verkefni lífeyrissjóðanna í samvinnu við stjórnvöld segir Arnar að vinna við aðkomu sjóðanna að byggingu hátæknisjúkrahúss sé í fullum gangi og á áætlun.

„Hvað varðar aðkomu lífeyrissjóðanna að innlendum þætti í byggingu Búðarhálsvirkjunnar er það mál í biðstöðu þar til langtímakaupandi að orkunni frá þeirri virkjun er fundinn," segir Arnar.

Hvað hugsanlegar fjárfestingar lífeyrissjóðanna í vegagerð segir Arnar að boltinn í því máli sé nú hjá samgönguráðuneytinu og bíði menn svara þaðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×