Innlent

Íslendingar og Rúmenar svartsýnastir

Svartsýni í skammdeginu. Mynd / Vilhelm.
Svartsýni í skammdeginu. Mynd / Vilhelm.

Íslendingar ásamt Rúmenum eru svartsýnastir tuttugu og fjögurra þjóða þar sem spurt var um væntingar fólks til horfa í efnahagsmálum næstu þrjá mánuðina. Heldur hefur þó dregið úr svartsýni þjóðarinnar frá því í júlí í sumar.

Íslendingar eru meðal svartsýnustu þjóða þegar spurt er um væntingar fólks um þróun efnahagsmála, samkvæmt alþjóðlegri könnun. Fimmtíu og níu prósent Íslendinga telja að efnahagsástandið muni versna á næstu þremur mánuðum og aðeins 7 prósent þjóðarinnar telja að ástandið muni batna, segir í tilkynningu frá Capacent Gallup.

Rúmenar eru jafn svartsýnir á horfur í efnahagsmálum og Íslendingar. Svartsýni Íslendinga hefur þó minnkað frá því í júlí þegar 71 prósent þjóðarinnar taldi að efnahagsástandið myndi versna á næstu þremur mánuðum þar á eftir. Viðhorf almennings í 24 löndum eru borin saman í þessum könnunum. Almennt séð er fólk á heimsvísu aðeins bjartsýnna en í júlí. Það sýnir minna aðhald í eyðslu og lítur framtíðina bjartari augum. Íslendingar eru svartsýnastir ásamt fimm öðrum þjóðum, Argentínumönnum, Búlgörum, Frökkum, Mexíkóum og Rúmenum.

Þá er traust fólks í löndunum tuttugu og fjórum á stjórnvöldum heldur að aukast en gerir það ekki á Íslandi. Útgjöld fólks eru alls staðar að dragast saman en þó mest hjá Íslendingum og Mexíkóum. Kreppan hefur alls staðar haft áhrif á andlega líðan fólks og eru Íslendingar kvíðnari og finna fyrir meiri streitu en fólk í öðrum löndum sem könnunin nær til.

Að meðaltali segjast 38 til 39 prósent svarenda í löndunum hafa upplifað streitu og kvíða vegna kreppunnar en 43 til 48 prósent Íslendingar kannast við þessar tilfinningar í tengslum við efnahagsástandið. Íslendingar sofa samt betur í kreppunni en aðrar þjóðir, en finna meira fyrir þunglyndi. Hér segjast 42 prósent geta rakið þunglyndi til efnahagsástandsins en í löndunum öllum segjast 17 prósent að meðaltali geta rakið þunglyndi til kreppunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×