Viðskipti innlent

JP Lögmenn fyrstir í skrifstofur turnsins við Höfðatorg

Mynd: GVA.
Mynd: GVA.

JP Lögmenn urðu um síðastliðin mánaðamót fyrstir til að flytja inn í skrifstofuhúsnæði í turninum við Höfðatorg í Reykjavík. JP Lögmenn eru á 16. hæð turnsins sem er 19 hæða hár, en lögfræðistofan er einnig með aðsetur á Selfossi.

Í tilkynningu segir að JP Lögmenn hafa vaxið umtalsvert á þessu ári en hjá fyrirtækinu starfa nú 12 manns, níu í Reykjavík og þrír á Selfossi. Sex lögmenn með fjölbreytta reynslu starfa hjá JP Lögmönnum en stofan sérhæfir sig m.a. í málflutningi, samkeppnis-, samninga-, kröfu- og gjaldþrotarétti, svo og skaðabótamálum.

JP Lögmenn starfrækja m.a. vefinn www.slysabætur.is sem er upplýsingavefur fyrir almenning um rétt til slysabóta og feril slíkra mála.

"Það er einkar ánægjulegt að JP Lögmenn skuli vera fyrstir til að flytja skrifstofur sínar í þessa einstöku byggingu með þessu magnaða útsýni. Stofan hóf starfsemi fyrir sléttum 40 árum og okkur fannst við hæfi að byrja næstu 40 árin hér. Við væntum þess að þegar fram í sækir verði hér á Höfðatorgi blómlegt atvinnulíf og skemmtilegt mannlíf," segir Daði Ólafsson, lögmaður hjá JP Lögmönnum.

Í turninum er nú þegar einn matsölustaður og annar mun opna snemma á næsta ári. Þá munu nokkur fyrirtæki hefja starfsemi á Höfðatorgi á næstunni. Mikill áhugi er á turninum og gera forsvarsmenn Höfðatorgs sér vonir um að stór hluti hans verði kominn í leigu á næstu mánuðum. Samið hefur verið um rekstur 350 herbergja hótels á Höfðatorgi sem ráðgert er að opni í mars 2012.

"Við bjóðum JP Lögmenn velkomna í turninn okkar og erum sannfærð um að það muni fara ákaflega vel um starfsemi fyrirtækisins í byggingunni. Við erum stoltir af verkefninu og vitum að það verður borginni til mikils sóma", segir Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Höfðatorgs ehf.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×