Innlent

Öryrki datt í lukkupottinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í gær komu tveir heppnir nýir Lottómilljónamæringar til Íslenskrar getspár með Lottómiða sem gáfu hvor um sig rúmlega 30 milljónir í vinning.

Samkvæmt tilkynningu frá Íslenskri getspá er annar þeirra öryrki á fertugsaldri sem hefur verulega skerta starfsorku og hefur ekki lengur getu til að vera á vinnumarkaðinum. Hann hafði boðið móðir sinni á rúntinn í Vesturbænum og þegar þau keyrðu Ægissíðuna ákvað hann að koma þar við í N1 og kaupa fimm 10 raða Lottómiða. Vinningshafinn horfði á útdráttinn í sjónvarpinu um kvöldið en það var ekki fyrr en eftir miðnætti að hann leit á textavarpið og sá á fjórða miðanum sem að hann skoðaði að þar var hann með þrjár réttar tölur. Hann skoðaði svo miðann betur og sá þá að hann hafði haft allar fimm tölurnar réttar.

Eins og Vísir hefur áður greint frá keypti hinn vinningshafinn sér miða í Samkaup Strax á Flúðum. Hann er fjölskyldumaður með tvö börn og búa þau í höfuðborginni en voru í helgarferð í sumarbústað á Flúðum. Það var ekki fyrr á sunnudagskvöldið á leiðinni heim að þau skoðuðu miðann en þau höfðu heyrt í útvarpinu að annar vinningsmiðinn hefði verið seldur á Flúðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×