Innlent

Skilorðsbundin dómur fyrir höfuðkúpubrot

Mynd/Haraldur Jónasson
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt 37 ára gamlan karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ýtt harkalega við við 33 ára gamlli konu þannig að hún féll aftur fyrir sig og skall með hnakkann í götuna með þeim afleiðingum að hún höfuðkúpubrotnaði og missti meðvitund. Áverkinn sem hún hlaut hefur haft talsverða fötlun í för með sér. Maðurinn þarf að greiða konunni rúmlega 700 þúsund krónur í bætur og þá var honum einnig gert að greiða rúmlega 460 þúsund krónur í sakarkostnað.

Atvikið átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum í janúar á þessu ári. Fram kemur í lögregluskýrslu að önnur kona hafi gengið að manninum inni á skemmtistaðnum og byrjað að svívirða föður hans. Við það reiddist maðurinn og ýtti konunni frá sér og lenti í átökum við aðra gesti á Lundanum. Eftir að út var komið segir maðurinn að hann hafi þurft að verja sig með því að ýta og stjaka við fólki sem hafi gert sig líklegt til að ráðast á hann og þannig hafi kona fallið aftur á bak og skollið í jörðina. Maðurinn sagði það ekki hafa verið ásetning sinn að meiða neinn, hann hafi aðeins verið að verjast áreiti og ágangi fólks.

Konan var flutt á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum. Í framhaldinu var ákveðið að senda hana með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þar kom í ljós að hún höfuðkúpubrotin og með blæðingu í heila. Taldi læknir að um alvarlegan og varanlegan áverka væri að ræða.

Fyrir liggur í málinu vottorð læknis frá lok apríl. Þar kemur fram að konan sé enn að jafna sig og hafi orðið vissar framfarir hjá henni en erfitt sé að fullyrða um varanleg áhrif áverkans. Áverkinn sé mikill og hafi hann haft talsverða fötlun í för með sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×