Viðskipti innlent

Tæplega 500 Hollendingar krefjast Icesave borgunnar

Alls hafa 469 Hollendingar, sem áttu yfir 100.000 evrur á Icesave reikningum, sent Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra bréf þar sem þeir krefjast borgunnar á innistæðum sínum. Vilja þeir að forsætisráðherra geri málið að forgangsmáli sínu þrátt fyrir komandi kosningar.

Í bréfinu segist þetta fólk vera einu innistæðueigendurnir sem séu fórnarlömb Landsbanka/Icesave málsins. Bretar hafi fengið sínar innistæður borgaðar að fullu frá breskum yfirvöldum og hollensk yfirvöld hafi borgað innistæðurnar þar í landi upp að 100.000 evrum.

Hollendingarnir minna Jóhönnu á að Ísland sé aðili að EES samningnum sem banni allan mismun milli innistæðueigenda. Landsbankinn átti ekki skráð félag í Hollandi heldur rak þar aðeins útibú og því eigi Hollendingar nákvæmlega sama rétt og Íslendingar hvað varðar innistæður sínar.

Er þar væntanlega verið að vitna í að íslensk stjórnvöld ákváðu að tryggja íslenskar innistæður í bönkunum þremur að fullu óháð upphæð þeirra.

Í lok bréfsins segir að Hollendingarnir séu reiðubúnir til að hitta forsætisráðherra hvenær sem er til að ræða framhald málsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×