Viðskipti innlent

Liklegt að ferðamönnum fjölgi og þeir kaupi meira en áður

Líklegt er að ferðamannaiðnaðurinn muni taka verulega við sér í sumar og að lágt gengi krónunnar verði til þess að ferðamönnum muni fjölga og að þeir ferðamenn sem hingað komi muni kaupa meira en áður.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að efnahagskreppan verður efalaust til þess að ódýrari ferðamannastaðir verði vinsælli en áður eða þeir áfangastaðir sem að bjóða upp á tiltölulega ódýra gistingu og uppihaldskostnað í samanburði við önnur lönd.

Þetta ættu að vera góðar fréttir fyrir Ísland sem hefur upp á síðkastið orðið að mun ódýrari áfangastaður en áður í kjölfar hruns krónunnar. Í kjölfarið má búast við viðsnúningi verður á þjónustujöfnuði við útlönd á næstu misserum en vaxandi halli á þjónustujöfnuði hefur verið einn þáttur í viðvarandi viðskiptahalla undanfarin ár.

Á undanförnum 12 mánuðum hefur íslenska krónan veikst um 46% gagnvart helstu gjaldmiðlum og stendur raungengið afar lágt sögulega séð sem gerir það að verkum að ferðamaðurinn sem heimsækir Ísland nú borgar talsvert minna fyrir vöru og þjónustu heldur en hann gerði í heimsókn sinni fyrir einu ári síðan.

Þrátt fyrir þessa gjörbreyttu samkeppnisstöðu Íslands í alþjóðlegum ferðamannaiðnaði hefur þessi breyting enn ekki náð að hafa sýnileg áhrif á fjölda erlendra gesta sem sækja Ísland heim það sem af er árinu. Fyrstu þrjá mánuði ársins heimsóttu 62 þúsund erlendir ferðamenn Íslands sem er fækkun um 6,5% frá sama tímabili síðasta árs þegar 66.200 erlendir gestir komu til Íslands.

Greiningin bendir á að mörg lönd, sem ferðamenn hafa komið frá, glíma við efnahagskreppu eins og Ísland sem skýrir fækkun ferðamanna á fyrstu þremur mánuðum ársins. En sem fyrr segir reiknar greiningin með að þetta breytist í sumar með blóm í haga fyrir ferðamannaiðnaðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×