Erlent

Netanyahu fór með leynd til Rússlands

Óli Tynes skrifar
Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. Mynd/AP
Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. Mynd/AP
Ísraelskir fjölmiðlar eru í nokkru uppnámi eftir að upplýst var að Benjamín Netanyahu forsætisráðherra hefði farið með leynd til Rússlands til að funda með ráðamönnum þar.

Síðastliðinn mánudag var fjarvera Netanyahus af skrifstofu sinni úrskýrð með því að hann hefði farið í heimsókn til leyniþjónustunnar Mossad.

Á miðvikudag upplýsti ísraelskt dagblað hinsvegar að hann hefði flogið með leynd til Moskvu. Varaforsætisráðherra landsins hefur nú staðfest að þetta sé rétt. Hann vildi hinsvegar ekkert segja um tilgang heimsóknarinnar.

Ísraelskir fjölmiðlar hafa velt upp þeirri hugmynd að Netanyahu hafi farið til þess að lýsa áhyggjum sínum af hugsanlegri sölu á rússneskum loftvarnaeldflaugum til Írans.

Í síðasta mánuði leituðu rússnesk herskip uppi fragtskipið Arctic Sea sem hafði horfið með dularfullum hætti. Því hefur verið haldið fram að skipið hafi meðal annars flutt S-300 loftvarnaeldflaugar sem áttu að fara til Írans. Rússnesk yfirvöld hafa neitað þessu.

Ísraelum er talsvert annt um loftvarnir Írana, það er að segja að þær séu sem veikastar. Þeir hafa lýst því yfir að þeir útiloki ekki að beita hervaldi til þess að hindra að Íran komi sér upp kjarnorkuvopnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×