Viðskipti innlent

Greiðslubyrði lána viðráðanleg fyrir flest heimili

Skuldsetning íslenskra heimila er mikil í alþjóðlegum samanburði þegar hún er mæld í hlutfalli við ráðstöfunartekjur en greiðslubyrði lána virðist engu að síður vera viðráðanleg fyrir flesta en um 77% heimila þarf að verja innan við 40% ráðstöfunartekna í greiðslubyrði íbúða-, bíla- og yfirdráttarlána.

Þetta kom fram á Málstofu Seðlabankans sem var haldin í gær um stöðu íslenskra heimila í kjölfar bankahrunsins . Karen Á. Vignisdóttir og Þorvarður Tjörvi Ólafsson hagfræðingar á hagfræðisviði Seðlabankans fluttu framsögu um stöðu heimilanna.

Helstu niðurstöður þeirra eru að þessi 77% heimila með viðráðanlega greiðslubyrði bera um 63% heildarskulda.

Eitt af hverjum sex heimilum er með mjög þunga greiðslubyrði og þarf að verja meira en helmingi ráðstöfunartekna í greiðslur lána. Skuldir þessa hóps heimila sem eru með mjög þunga greiðslubyrði nema um 29% heildarskulda.

Þegar litið er á stöðu barnafjölskyldna kemur í ljós að 78% hjóna með börn eru með viðráðanlega greiðslubyrði en staða einstæðra er erfiðari.

Tæplega helmingur heimila með íbúðalán í erlendri mynt er með yfir 500 þ.kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði.

Meira en helmingur heimila með íbúðalán í erlendri mynt er með viðráðanlega greiðslubyrði en tæplega fjórðungur er með mjög þunga greiðslubyrði.

Þau heimili sem búa við þunga greiðslubyrði og viðkvæma eiginfjárstöðu um leið og þau verða fyrir tekjumissi eru í mestri hættu á að lenda í greiðsluerfiðleikum.

Heimili í mjög neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði hafa tilhneigingu til að tilheyra tekjuhærri hópunum og um helmingur þeirra er með viðráðanlega greiðslubyrði.

Heimili sem eru með þunga greiðslubyrði lána hafa tilhneigingu til að tilheyra tekjulægri hópunum en um 68% þeirra eru enn í jákvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði.

Um 2,5% heimila sem eiga íbúðahúsnæði eru bæði í mjög neikvæðri eiginfjárstöðu og með þunga greiðslubyrði lána.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×