Innlent

Elísabet blekkti með villandi auglýsingum

Neytendastofa bannar áframhaldandi birtingu auglýsinga um að svokallaðar Elísabetartryggingar séu allt að 30 prósentum lægri fyrir heimili en hjá öðrum tryggingafélögum.

„Í auglýsingunum er ekki greint frá því að um mismunandi tryggingar er að ræða og því eru þær villandi," segir í ákvörðun Neytendastofu sem skoðaði málið eftir ábendingar frá neytendum um að í tryggingum Elísabetar væru færri vátryggingaþættir en hjá öðrum tryggingafélögum.

Það er Tryggingamiðstöðin sem rekur tryggingafélagið Elísabet. Neytendastofa óskaði eftir að færðar yrðu sönnur á fullyrðinguna um að heimilin spöruðu 30 prósent með því að kaupa tryggingar Elísabetar. Þá var spurt hvort tekið hafi verið tillit til sjálfsábyrgðar og þeirra vátryggingaþátta sem keppinautar Elísabetar bjóða eða hvort einungis hafi verið litið til verðs.

Elísabet svaraði með því að vísa í verðdæmi á vefsíðu sinni. Í samanburði þar við Vátryggingafélag Íslands kæmi fram hver vátryggingafjárhæðin væri og að hvaða leyti trygging Elísabetar hefði takmarkaðra bótasvið en tryggingar VÍS.

„Neytendastofa hefur vegna máls þessa borið saman skilmála á fasteignatryggingum Elísabetar og skilmála samanburðarfélagsins. Við þá skoðun hefur komið í ljós að í tryggingu samanburðarfélagsins eru ábyrgðarliðir sem ekki eru í tryggingum Elísabetar," segir Neytendastofa sem telur Tryggingamiðstöðina hafa brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

„Í auglýsingum Elísabetar er með almennum hætti fullyrt að neytendur geti lækkað kostnað við heimilistryggingar um allt að 30 prósent. Eins og að framan hefur verið rakið eru í auglýsingunum bornar saman tryggingar Elísabetar við tryggingar keppinauta þó þær innihaldi til dæmis ekki sömu ábyrgðarliði," segir Neytendastofa og minnir á að viðskiptahættir séu óréttmætir ef þeir raski verulega eða séu líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir teljist villandi ef þeir séu líklegir til að blekkja neytendur.

„Er það mat Neytendastofu að auglýsingar Elísabetar með fullyrðingu um allt að 30% lækkun á verði heimilistrygginga séu til þess fallnar að hafa áhrif á fjárhagslega hegðun neytenda. Þá er neytendum að mati stofnunarinnar gefnar villandi upplýsingar um verð þjónustunnar þar sem ekki er greint frá því að færri ábyrgðarliðir eru í tryggingum Elísabetar en tryggingum keppinauta."

gar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×