Viðskipti innlent

Samstaða um fjárhagsáætlun

Frá Dalvík. Fiskidagurinn mikli laðar þúsundir gesta til bæjarins ár hvert.
Frá Dalvík. Fiskidagurinn mikli laðar þúsundir gesta til bæjarins ár hvert.

114 milljóna króna afgangur verður á rekstri A hluta Dalvíkurbyggðar á næsta ári. Að teknu tilliti til halla á B hlutanum verður afgangur bæjarfélagsins 95 milljónir, samkvæmt fjárhagsáætlun 2010.

Var hún til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag. Stendur öll bæjarstjórnin að henni.

Fjárfest verður í Dalvíkurbyggð fyrir 324 milljónir á næsta ári. Ber þar hæst lok framkvæmda við nýja íþróttamiðstöð og búnaðarkaup vegna hennar. Þá verður nokkru fé varið til gatna og gangstétta og ýmissa umhverfisverkefna, að því er fram kemur í frétt frá Dalvíkurbyggð.

Fyrirtæki sveitarfélagsins, svo sem Vatnsveita og Hafnarsjóður, munu einnig framkvæma nokkuð á nýja árinu auk þess sem viðhaldi verður sinnt.

Reiknað er með að skatttekjur verði nítján milljónum króna lægri á næsta ári en 2009. Helgast það af lægri framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en útsvar og fasteignaskattar breytast ekki milli ára.

Lántaka upp á rúmar hundrað milljónir vegna framkvæmdanna við íþróttamiðstöðina er fyrirhuguð en heildarkostnaður vegna hennar verður þá kominn í 544 milljónir. Skuldir Dalvíkurbyggðar munu við lok næsta árs nema rúmum milljarði króna. Tæpur helmingur er tilkominn vegna félagslegra íbúða.

- bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×