Viðskipti innlent

Fjárfestingarsjóður lífeyrissjóða verður myndarlegur að stærð

Stefnt er að því að halda stofnfund fyrir fjárfestingarsjóð lífeyrissjóðanna um miðjan október. Arnar Sigurmundsson formaður stjórnar Landsamtaka lífeyrissjóðanna segir að um myndarlegan sjóð verði að ræða eða upp á tugi milljarða kr.

 

Á fundi sem lífeyrissjóðirnir héldu um málið í gærdag kom fram að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í heild nemi um 100 milljörðum á hverju ári. Arnar segir að þetta fé sé notað til kaupa á ríkisskuldabréfum, húsbréfum og öðrum traustum eignum. „Það á hinsvegar eftir að ákveða hve stór hluti af þessari upphæð yrði notuð til að mynda fjárfestingarsjóðinn," segir Arnar.

 

Stjórnir lífeyrissjóðanna hafa nú fram að miðjum október til að ræða málið og ákveða framlag hvers um sig að Fjárfestingarsjóði Íslands sem er vinnuheitið á sjóðnum.

 

Aðspurður segir Arnar að stefnt sé að því að viðkomandi lífeyrissjóðir hafi síðan næstu þrjú til fjögur árin til að greiða inn stofnfjárframlag sitt til sjóðsins. „Að þeim tíma liðnum ætti sjóðurinn að vera farinn að fá inn hagnað af þeim verkefnum sem sett verða í gang þegar starfsemin hefst nú í vetur," segir Arnar.

 

Aðspurður um verkefnavalið hjá sjóðnum segir Arnar að þar sé verið að ræða um fjárfestingar í bæði stórum og smáum fyrirtækjum. „Við vitum að það eru til mörg burðug fyrirtæki í landinu sem hafa farið illa út úr hruninu en eiga framtíð fyrir sér ef fjármagn fæst inn í reksturinn," segir Arnar. „Þetta verður allt skoðað."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×