Viðskipti innlent

Fasteignafélag stofnað um byggingu háskólasjúkrahúss

Mynd ÞÖK
Mynd ÞÖK

Meðal þeirra hugmynda sem uppi eru um aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins er að stofnað verði fasteignafélag um byggingu háskólasjúkrahússins. Yrði félagið í eigu lífeyrissjóðann og jafnvel fleiri fjárfesta.

Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðann segir að þegar gengið var frá stöðugleikasáttmálanum í sumar hafi verið gert ráð fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna með fjármagn til mannfrekra framkvæmda. Bygging háskólasjúkrahúss sé slík framkvæmd.

„Það sem hangir á spýtunni er að ekki er hægt að auka við skuldir ríkissjóðs umfram það sem nú er," segir Hrafn. „Þetta er leið til að komast hjá því en spurningin er hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum líst á þessar hugmyndir."

Hrafn segir að fundað verði um málið í þessari viku en hugmyndin er að eftir að háskólasjúkrahúsið er risið myndi fasteignafélagið leigja ríkissjóði byggingarnar. „Síðan gæti ríkissjóður hreinlega keypt sjúkrahúsið af fasteignafélaginu í framtíðinni þegar fjárhagsstaða sjóðins batnar."

Önnur verkefni sem lífeyrissjóðirnir eru með á prjónunum er stofnun Fjárfestingarsjóðs Íslands til að halda utan um þau verkefni sem sjóðirnir ætla að ráðast í hvað varðar endurreisn atvinnulífsins. Hrafn segir að í þann sjóðs sé ráðgert að setja allt að 75 milljarða kr.

„Það eru mörg önnur mannfrek verkefni sem lífeyrissjóðirnir geta hugsað sér að koma að eins og til dæmis Búðarhálsvirkjun, vegagerð og fleira," segir Hrafn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×