Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin neyddu kröfuhafa til að eignast bankana

Jesper Rangvid prófessor í fjármála- og hagfræði við Copenhagen Business School (CBS) segir að gjaldeyrishöftin á Íslandi hafi neytt kröfuhafa Glitnis og Kaupþings til þess að gerast eigendur Íslandsbanka og Arion banka.

 

Þetta kemur fram í viðskiptablaðinu Börsen þar sem fjallað er um endurreisn íslenska fjármálakerfisins sem blaðið segir að gangi hægt og rólega. Þetta þýði m.a. að erlendir stórbankar leysi af íslenska eigendur danskra fyrirtækja. Eru húsgagnakeðjan BIVA og FIH bankinn tekin sem dæmi.

 

„Ísland hefur lokað fyrir allt gjaldeyrisútstreymi úr landinu," segir Rangvid. „Menn geta ekki flutt fé sitt úr landinu svo að kröfuhafarnir gátu ekki annað en tekið þátt í endurreisninni þar sem þeir breyttu kröfum sínum í eignaraðild. Með gjaldeyrishöftunum áttu þeir ekkert val."

 

Í umfjöllun Börsen kemur fram að fyrir utan prófessorstöðuna við CBS sé Rangvid einnig kennari hjá Háskólanum í Reykjavík og því fylgist hann náið með þróuninni á Íslandi. „Fyrir íslensk stjórnvöld og þjóðina er það frábært að kröfurnar breytist í eignarhluti," segir Rangvid. „Því þá sleppa þau við að greiða peningana til baka."

 

Stórbankarnir sem hér um ræðir segir Börsen að komi einkum frá Bretlandi og Þýskalandi en að einnig séu danskir bankar í hópnum. Hinsvegar getur blaðið þess ekki að vogunarsjóðir og írskt skúffufyrirtæki séu meðal stærstu eigenda Íslandsbanka.

 

„Það er nauðsynlegt að erlend sérfræðiþekking komi inn í þessa banka," segir Rangvid. „Það er augljóst að stjórnun þeirra var ótrúlega léleg enda hrundu þeir allir á sama tíma."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×