Viðskipti innlent

Áratuga starfslokasamningur í búi Straums

Ingimar Karl Helgason skrifar
Óttarr Möller, sem gerir tæplega 280 milljóna launakröfu í bú Straums, hefur aldrei starfað fyrir bankann. Óttar hefur verið á launum hjá bankanum, og forverum hans, Burðarási og Eimskipafélaginu í þrjá áratugi, en hann lét af störfum sem forstjóri Eimskips árið 1979.

Fjölmargar launakröfur eru í búið hjá Straumi. William Fall fyrrverandi forstjóri krefst til að mynda yfir 600 milljóna króna. En launakröfur eru fleiri og háar.

Óttarr Möller á eina hæstu launakröfuna. Hann krefst 279 milljóna króna af búi Straums. Krafan er flokkuð sem launakrafa. Óttarr hefur þó aldrei unnið fyrir Straum.

Óttarr er fæddur 1918 og er kominn á tíræðisaldur. Hann er í hópi helstu fyrirmenna sinnar kynslóðar og lauk starfsferli sínum sem forstjóri Eimskipafélagsins árið 1979.

Eftir því sem næst verður komist tengist launakrafan eftirlaunasamningi, sem Óttarr gerði við Eimskip á sínum tíma. Hann héldi launum eða hluta þeirra.

Síðar fylgdi eftirlaunasamningurinn fjárfestingararmi Eimskipafélagsins, Burðarási, þegar hann var klofinn frá félaginu, og rann svo inn í Straum þegar Straumur og Burðarás runnu saman árið 2004.

Slitastjórn hefur hafnað kröfunni að svo stöddu.

Gísli Guðni Hall lögmaður vill taka fram að krafan sé sett fram eingöngu vegna þess að Óttarr eigi réttindi hjá Straumi sem slitastjórn Straums þurfi að taka afstöðu til.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×