Innlent

Fjármagnsflutningar Kaupþings orsökuðu hryðjuverkalög

Davíð Oddsson seðlabankastjóri telur að meintir fjármagnsflutningar Kaupþings frá Bretlandi til Íslands, skömmu fyrir fall bankanna, hafi orðið til þess að umdeildum hryðjuverkalögum var beitt. Þetta sagði hann í samtali við forsætisráðherra í dag.

Margir urðu forviða og spurðu sig að því hvað Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi átt við á fundi Viðskiptaráðs í gær þegar hann sagði þetta um ástæður þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi:

,,Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð, þá hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra yfirvalda."

Fréttastofa óskaði eftir svörum frá seðlabankastjóra um málið í dag en hann sinnti ekki fyrirspurninni. Fréttastofan náði aftur á móti tali af forsætisráðherra.

,,Ég er búinn að tala við hann en ég tel eðlilegt að hann svari þessum spurningum sjálfur hvað það er sem hann hefur í huga," sagði Geir.

Geir vildi ekki upplýsa hvað fór á milli hans og Davíðs í dag.

Fréttamaður gekk frekar á Geir og þá vísaði hann í ummæli Gordons Brown forsætisráðherra Bretlands um málið.

,,Það liggja fyrir ásakanir að hálfu Breta að það hafi verið fjármagnsflutningar með ólöglegum hætti frá Bretlandi til Íslands. Málið snýst væntanlega um það."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×