Viðskipti erlent

Verðstríð í fullum gangi meðal verslanakeðja í Bretlandi

Verslanakeðjur og stórmarkaðir eru nú komnir í illvígt verðstríð í Bretlandi. Í sumum fjölmiðlum er talað um að blóðbað sé í gangi í dýrari enda markaðarins. Tesco, House of Fraiser, Marks & Spencer og Debenhams eru meðal þeirra sem bjóða nú viðskiptavinum mikla afslætti af vörum sínum.

Baugur á eignarhluti í m.a. House of Fraiser og Debenhams en samkvæmt frétt í blaðinu Telegraph mun House of Fraiser veita allt að 40% afslátt á vörum sínum næstu tvo daga og Debenhams ætlar að endurtaka leikinn frá í fyrri viku með 25% afslætti.

Afsláttur Debenhams í síðustu viku var svar við svipuðum tilboðum hjá Marks & Spencer sem einnig ætlar að endurtaka leikinn í þessari viku.

Tesco ætlar frá og með deginum í dag að veita allt að 50% afslátt af völdum vörum í sínum verslunum, þar á meðal reiðhjólum, ljósmyndavélum og hljómflutningstækjum.

Samkvæmt könnun markaðsfyrirtækis á Bretlandi má reikna með að komum kaupenda á vörum í verslunum og stórmörkuðum í desember muni fækka um rúm 7% miðað við sama mánuð í fyrra. Margir verslunareigendur eru því taugaóstyrkir fyrir komandi jólavertíð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×