Erlent

Fékk leyninlega aukafjárveitingu vegna Íransmála

Bandaríkjaforseti fékk í fyrra þrjátíu og þriggja milljarða króna leynilega aukafjárveitingu frá leiðtogum á Bandaríkjaþingi til að herða á aðgerðum leyniþjónustunnar gegn klerkastjórninni í Íran. Margir þingmenn spyrja nú hvort féð hafi verið notað í ólöglegar aðgerðir, svo sem eins og mannrán.

Þetta kemur fram í grein eftir bandaríska rannsóknarblaðamanninn Seymour Hersh sem bandaríska tímaritið New Yorker birtir. Hersh er Pulitzer-verðlaunahafi sem afhjúpaði fjöldamorð bandarískra hermanna í My Lai í Víetnam 1968 og nú síðast illa meðferð á föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak.

Fyrir rúmum tveimur árum birti hann grein þar sem hann staðhæfði að bandarísk stjórnvöld væru að undirbúa stórfelldar hernaðaraðgerðir gegn Írönum til að koma veg fyrir að þeim komi sér upp kjarnorkuvopnum. Bush Bandaríkjaforseti vísaði því alfarið á bug.

Í nýrri grein, sem birt var á vef blaðsins í gær, vitnar Hersh til formlegrar beiðni Bush Bandaríkjforseta um rúmlega þrjátíu milljarða króna aukafjárveitingu sem hann sendi leiðtogum á Bandaríkjaþingi. Sú beiðni er bundin leynd vegna þjóðaröryggis. Orðið var við henni.

Samkvæmt heimildum Hersh átti að nota féð til að herða á leynilegum aðgerðum gegn klerkastjórninni í Íran. Veita átti andspyrnuhópum fjárstuðning og afla enn frekari gagna um kjarnorkuáætlun leiðtoga í Teheran. Tilgangurinn var að grafa undan þeim og lokatakmarkið að skipta út Ahmadinajad Íransforseta fyrir lýðræðiselskan leiðtoga.

Samkvæmt grein Hersh eru þeir þingmenn sem samþykktu fjárveitinguna nú með efasemdir því komið hafi í ljós að peningarnir hafi farið í vafasamar aðgerðir sem ekki hafi verið skilgreindar í beiðninni. Írönum hafi verið rænt og þeir fluttir yfir landamærin til Íraks þar sem þeir hafi sætt pyndingum við yfirheyrslur. Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, segir þetta alrangt.

Í greinni kemur einnig fram að fé hafi farið til illskeytts hóps sem berst gegn klerkastjórninni. Það kaldhæðislega er að sá hópur hefur löngum verið talinn tengjast al-Qaida.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×