Viðskipti erlent

Segir að það séu "viðskipti eins og venjulega" hjá Baugi í Bretlandi

Gunnar Sigurðsson forstjóri Baugs í Bretlandi segir að félagið ætli ekki að breyta eignasafni sínu á næstunni og það séu "viðskipti eins og venjulega" í öllum félögum Baugs í Bretlandi.

Þetta kemur fram í viðtali Retail Week við Gunnar í vikunni. Gunnar segir að Baugur einbeiti sér nú að því að aðstoða félög sín og verslunarkeðjur í komandi jólavertíð.

"Verslanirnar opna að morgni og loka að kvöldi og það er hið mikilvægasta í okkar viðskiptum," segir Gunnar. "Við erum með frábær merki og framtíðarhorfur eru góðar."

Aðspurður um söluna á 1-2 milljörðum punda af skuldum Baugs segir Gunnar að það hafi verið erfiðir tímar meðan það má var í hámæli í fjölmiðlum. "Þetta hefur róast síðan," segir hann.

Hvað framtíðina varðar segir Gunnar að hann eigi ekki von á fleiri viðræðum um kaup á skuldunum. Allavega ekki á meðan verið sé að endurbyggja íslenska bankakerfið og það geti tekið tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×