Skoðun

Rifjum upp gleymda atburði

Sjaldan hefur verið meiri ástæða til að lyfta sér upp og gera sér glaðan dag með það að markmiði að gleyma um stund þeim hremmingum sem landsmenn glíma nú við. Sjaldan hefur verið jafnrík ástæða til að taka þátt í og njóta þess fjölskrúðuga menningarlífs sem blómstrar um allt land. Norræni skjaladagurinn, sem haldinn er árlega, er einn slíkra menningarviðburða. Hann verður haldinn hátíðlegur í Þjóðskjalasafni Íslands og í héraðsskjalasöfnum landsins með ýmsu móti, svo sem með opnu húsi og sýningum. Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti og árið 2001 sameinuðust þau um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember. Í ár er skjaladagurinn þann 8. nóvember. Hérlendis er dagurinn tileinkaður gleymdum atburðum. Sérstakur vefur er helgaður þessu viðfangsefni, www.skjaladagur.is.

Í Reykjavík verða Þjóðskjalasafn Íslands og Borgarskjalasafn Reykjavíkur með sameiginlega dagskrá hjá Þjóðskjalasafni við Laugaveg 162 milli kl. 11 og 15. Þar verður safnkosturinn kynntur fyrir gestum og gangandi, m.a. með ferðum í skjalageymslurnar, sem geyma um 35 hillukílómetra af gögnum, eða sem svarar um það bil vegalengdinni frá Rauðavatni til Hveragerðis. Einnig verða flutt ýmis erindi og þeirra á meðal er erindi Önnu Agnarsdóttur prófessors, sem mun rifja upp vin- og óvinveitt samskipti Íslendinga og Breta í aldanna rás. Gunnar Örn Hannesson sagnfræðingur ætlar að segja frá því þegar skólapiltar voru barðir til bókar fyrr á öldum. Björn Jón Bragason sagnfræðingur mun ræða Hafskipsmálið í ljósi nýfundinna skjala og Guðfinna Ragnarsdóttir, jarðfræðingur og fyrrverandi kennari við MR, segir frá og sýnir hvað jafnvel sum ómerkilegustu bréfsnifsi geta verið mikilvægar heimildir í ættfræðirannsóknum.

Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga erindi á skjalasöfn. Og því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn eða Þjóðskjalasafn ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við.

Höfuðborgarbúar eru hvattir til að heimsækja Þjóðskjalasafn Íslands kl. 11 nk. laugardag og njóta áhugaverðrar dagskrár sem þar verður í boði Þjóðskjalasafns og Borgarskjalasafns.

Höfundur er sviðsstjóri útgáfu- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×