Viðskipti innlent

Búast við 15,7 prósenta verðbólgu í október

Greiningardeild Kaupþings spáir því að verðbólga í október reynist 15,7 prósent og hækki þannig um tæp tvö prósentustig á milli mánaða. Nýjar verðbólgutölur verða birtar á mánudag og í hálffimmfréttum Kaupþings kemur fram að greiningardeildin geri ráð fyrir að verðlag hækki um um það bil tvö prósent.

Spáin gerir enn fremur ráð fyrir að verðbólga nái ekki hámarki fyrr en á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. ,,Ef gengi krónunnar mun ekki veikjast frekar má búast við að verulega hægi á mánaðarhækkunum verðbólgu á seinni hluta 2009. Þó eru litlar líkur á að tólf mánaða verðbólga verði í námunda við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrr en í upphafi árs 2010. Hafa ber í huga að óvissan um verðlagsþróun er nú meiri en oft áður og er hættan á frávikum mikil," segir greiningardeildin.

Bent er á að ef spáin gangi eftir muni veiking krónunnar ekki skila sér jafngreiðlega út í verðlag og til að mynda í apríl síðastliðnum. ,,Ástæðan er annarsvegar að eldsneytisverð og kostnaður vegna íbúðakaupa eru nú til lækkunar verðlags ólíkt því sem var framan af árinu. Að auki hefur orðið breyting á aðstæðum kaupmanna sem gæti haft áhrif á verðlagningu. Kaupmenn hafa t.a.m. ekki óhindrað aðgengi að gjaldeyri til að innleysa vörur. Nokkuð er um að því hafi verið frestað að taka inn nýja vöru og gæti því orðið meiri töf en venjulega á áhrifum gengisveikingar á verðlag. Loks er ljóst að snarminnkandi eftirspurn neytenda dregur úr hvata kaupmanna til verðhækkana," segir í hálffimmfréttunum.

Gerir greiningardeildin hins vegar ráð fyrir að matvara og fatnaður muni að líkindum hafa kröftug áhrif til hækkunar verðlags.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×