Erlent

Menn Mugabes myrða andstæðinga hans

Seinni umferð forsetakosninganna í Simbabve síðar í þessum mánuði getur aldrei farið fram með lýðræðislegum hætti að mati mannréttindasamtakanna Human Rights Watch. Í nýrri skýrslu samtakanna eru fjörutíu morð á stjórnarandstæðingum rakin til liðsmanna Mugabe, forseta landsins.

Skýrsla mannréttindasamtakanna Human Rights Watch ber titilinn „Byssukúla fyrir hvert ykkar - ofbeldi með stuðningi yfirvalda frá kosningunum 29. mars". Skýrsluhöfundar fjalla um þrjátíu og sex dauðsföll og rúmlega tvö þúsund tilvik misþyrminga sem hægt sé að rekja til herskárra liðsmanna í flokki Roberts Mugabe forseta, og einnig til lögreglu- og hermanna sem hann stjórnar. Óttast skýrsluhöfundar að fleiri hafi verið myrtir eða pyndaðir. Þeir segja að pyndingarbúðir séu reknar í landinu þangað sem andstæðingar forsetans eru færðir. Þeir segjast vita um tilvik þar sem hótað er að myrða fólk ef það kjósi ekki rétt.

Þess fyrir utan séu matvæli notuð sem vopn í valdabaráttunni en það hafi gerst um leið og hjálparsamtökum hafi verið bannað að starfa í landinu. Miðað við ástand efnahagsmála í landinu treysti milljónir Simbabvebúa á matargjafir þessara samtaka. Þeir séu nú undir hæl sitjandi forseta.

Skýrsluhöfundar gagnrýna Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku, harðlega en hann tók að sér að miðla málum þegar upp úr sauð eftir kosningarnar í lok mars. Hann hafi ekki tekið á málinu af festu og sé ekki hlutlaus.

Kosningabaráttan í Simbabve fyrir seinni umferð forsetakosninganna tuttugasta og sjöunda júní næstkomandi er hafin. Valið stendur milli Mugabe og Morgans Tsvangirai, leiðtoga MDC, stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Lögregla hefur ítrekað handtekið Tsvangirai á kosningaferðalagi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×