Viðskipti innlent

Kaupþingskóngar gætu tapað 281 milljón á starfslokagreiðslum

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson.
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson.

Í ársskýrslu Kaupþings frá árinu 2007 kemur fram að ef stjórnarformaður og forstjóri bankans segi upp störfum fái þeir greidd laun næstu 12 mánuði. Hætti þeir hinsvegar störfum af öðrum ástæðum fá þeir greidd laun í 48 mánuði frá því að þeir hætta störfum. Steinar Þór Guðgeirsson formaður skilanefndar Kaupþings þekkir ekki til þessa ákvæðis í samningi forstjórans og stjórnarformannsins og vill ekkert láta eftir sér hafa um málið.

Í kjölfar yfirtöku ríkisins á Kaupþingi og stofnun hins Nýja Kaupþings létu þeir Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri og Sigurður Einarsson stjórnarformaður af störfum. Samkvæmt fyrrnefndri ársskýrslu kemur fram að laun þeirra Hreiðars og Sigurðar séu 70,5 milljónir á ári sem gerir um 5,8 milljónir á mánuði.

Samkvæmt ráðningasamningi fengju þeir félagar því 5,8 milljónir á mánuði næstu fjögur árin sem gerir um 282 milljónir á mann.

Samkvæmt heimildum Vísis þá gilda þær reglur sem fram koma í ráðningasamningum viðkomandi sé þeim sagt upp störfum. Launin sem viðkomandi fær á umræddum uppsagnarfresti tekur mið af ráðningasamningi en ef bankinn verður úrskurðaður gjaldþrota horfir málið öðruvísi við, því þá eiga þeir félagar kröfu í þrotabúið.

Ef ekkert fæst upp í slíka kröfu væri næsta skref fyrir þá félaga að fá greiðslu úr ábyrgðarsjóði launamanna sem er að hámarki 345 þúsund krónur á mánuði og takmarkast við þrjá mánuði.

Það er því spurning hvort þeir félagar fái 282 milljónir líkt og ráðningasamningurinn segir til um eða 1.035.000 verði bankinn lýstur gjaldþrota og þeir fái ekkert upp í þá kröfu sem þeir eiga í þrotabúið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×