Erlent

Gústaf nálgast fimmta stig - óttast mikla eyðileggingu í New Orleans

Fellibylurinn Gústaf nálgast nú óðfluga fimmta stig á hinum svokallaða Saffir-Simpson kvarða og stefnir hraðbyri á suðurströnd Bandaríkjanna.

Fellibyljavakt hefur verið komið á allt frá suðausturhluta Texas til landamæra Flórída og Alabama en skelfingin er mest í New Orleans þar sem menn muna enn hörmungarnar sem fylgdu yfirreið fellibyljarins Katrínar fyrir um þremur árum.

Tugþúsundir manna við ströndina hafa yfirgefið heimili sín og Ray Nagin, borgarstjóri í New Orleans, hvatti borgarbúa til að yfirgefa borgina. Spár gera ráð fyrir að Gústaf gangi á land vestan við borgina á mánudagskvöld en verði hann af styrk 5 fylgir honum gríðarleg eyðilegging.

Ríkisstjórinn í Louisiana, Bobby Jindal, hefur kallað út alla þjóðvarðliða í ríkinu, sjö þúsund talsins, og fara 1500 þeirra til New Orleans til að aðstoða fólk við að yfirgefa heimili sín og koma í veg fyrir rán og gripdeildir. Þá hefur Bush Bandaríkjaforseti lýst yfir neyðarástandi í bæði Louisiana, Mississippi og Alabama sem þýðir að alríkisstjórnin getur veitt viðeigandi aðstoð ef fellibylurinn skellur á þessum ríkjum.

Gústaf hefur ekki einungis áhrif í Bandaríkjunum því hann er um það bil að skella á Kúbu og þar hafa íbúar á vesturhluta eyjunnar þurft að yfirgefa heimili sín. Áður hefur hann valdið skemmdum á mannvirkjum á Jamaíku og þá er um 70 manns látnir á Haítí og Dóminíska lýðveldinu af hans völdum. Þá hefur fellibylurinn áhrif á olíuframleiðslu á Mexíkóflóa en henni hefur verið hætt á meðan Gústaf gengur yfir.

Þá virðist fellibyljatímabilinu ekki að vera að ljúka við Norður-Ameríku því fregnir berast af því að hitabeltisstormurinn Hanna sæki nú í sig veðrið í Karíbahafi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×