Erlent

Íslenskur meintur byssumaður á Spáni

Íslendingur á Spáni hefur verið kærður til lögreglunnar þar, fyrir hótanir og að beina byssu að konu á götu úti.

Fjallað er um málið í blaðinu Leader sem gefið er út á ensku á Costa Blanca svæðinu undir fyrirsögninni Living Hell. Þar lýsa bresk hjón samskiptum sínum við Íslending, sem kallaður er HH, en hann leigir af þeim fasteignir. Samkvæmt greininni auglýsti Íslendingurinn eignir til leigu undir því yfirskini að hann væri í vinnu hjá eigendunum. Þegar hann var beðinn um að hætta því sem og að greiða vandgreidda leigu brást hann hinn versti við og sagði lögreglu frá því að bresku hjónin væru með skotvopn heima hjá sér og gerði lögreglan húsleit hjá þeim í kjölfarið, þar sem ekkert fannst, engu að síður er málið á leið fyrir dómstóla.

Eftir það segja hjónin í blaðinu að hótanir af hálfu Íslendingsins hafi færst í aukana, bæði hafi hann hótað að leggja fyrirtæki þeirra í rúst, sem og hótað fjölskyldunni meiðingum. Um þverbak hafi svo keyrt fyrir stuttu þegar breska konan var að sækja dóttur sína í skóla. Þá hafi Íslendingurinn ekið framhjá, en þegar hann sá konuna sneri hann við, hótaði henni og beindi að henni byssu, að henni sýndist. Vitni voru að atburðinum og hefur málið verið kært til lögreglu. Dóttir mannsins var í bílnum með honum þegar þetta gerðist.

Í greininni er gefið í skyn að maðurinn stundi heimilisofbeldi. Þegar blaðið reyndi að ná tali af honum hótaði hann að kæra það til lögreglunnar og lagði á. Ekki hafi tekist að ná símasambandi við hann eftir það.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×