Viðskipti innlent

Eftir standa þrettán

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður og Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, glugga í síðasta ársreikning á kynningu hans.
Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður og Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, glugga í síðasta ársreikning á kynningu hans. Fréttablaðið/Anton
Frá og með deginum í dag er FL Group ekki lengur með í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI15 vísitalan), en í henni standa þá eftir 13 félög.

Í tilkynningu Kauphallar Íslands kemur fram að bréf FL Group séu tekin úr vísitölunni vegna ófullnægjandi seljanleika, en ákvörðunin sé í samræmi við reglu 4.9 í reglum um samsetningu og viðhald OMXI15 vísitölunnar. Mjög hefur dregið úr veltu með bréf félagsins, en það bíður afskráningar.

Valið er í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar á hálfs árs fresti og tekur ný vísitala næst gildi 1. júlí. Þá eru valin 15 veltumestu félög kauphallarinnar, auk þess sem þau þurfa að uppfylla fleiri skilyrði. Fæst geta félög vísitölunnar verið 12 en flest 15, samkvæmt upplýsingum úr kauphöllinni. Síðast voru þannig einungis valin 14 félög í vísitöluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×