Viðskipti innlent

Aðgerðir til að örva efnahagslífið ótímabærar

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri
Davíð Oddsson Seðlabankastjóri

Seðlabankinn telur ótímabært að ríkisvaldið fari í sérstakar aðgerðir til þess að örva efnahagslífið. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar Seðlabankastjóra, þegar bankinn kynnti stefnuyfirlýsinguna sína í dag. Bankastjórnin ákvað í morgun að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, 15,5%.

„Aðgerðir til þess að örva efnahagslífið nú, hvort heldur með minna aðhaldi í peninga- eða ríkisfjármálum, eru ótímabærar. Þær myndu tefja óhjákvæmilega aðlögun þjóðarbúskaparins að jafnvægi, veikja gengi krónunnar og stuðla að meiri verðbólgu og hærri verðbólguvæntingum. Að endingu leiðir slík stefna einnig til meiri samdráttar í þjóðarbúskapnum. Hún veikir jafnframt efnahag skuldsettra heimila og fyrirtækja og grefur undan fjármálalegum stöðugleika. Mikilvægt er að ríkisfjármálastefnan vinni með peningamálastefnunni að því að draga úr verðbólgu og stuðla að innra og ytra jafnvægi í þjóðarbúskapnum," segir í stefnuyfirlýsingu Seðlabankans.

Hjöðnun verðbólgu gæti orðið hægari en gert var ráð fyrir

Seðlabankinn segir að vísbendingar séu misvísandi um þessar mundir. Verðbólga hafi aukist verulega í kjölfar gengislækkunar krónunnar á fyrstu mánuðum ársins. Hún hafi verið nokkru meiri að undanförnu en síðasta spá Seðlabankans hafi gert ráð fyrir. Enn standi líkur til þess að verðbólga sé nærri hámarki um þessar mundir og muni taka að hjaðna hratt á næsta ári. Gengi krónunnar sé lægra en spár ætluðu í júlí og raungengi krónunnar sé sögulega lágt. Þá sýni nýjar tölur meiri hagvöxt en reiknað hafi verið með. Því gæti hjöðnun verðbólgu orðið eitthvað hægari en gert hafi verið ráð fyrir í júlí. Aukin verðbólga og verðbólguvæntingar feli jafnframt í sér að raunstýrivextir hafi lækkað á undanförnum mánuðum. Á móti komi að væntingavísitölur hafi lækkað verulega, aðgengi að lánsfé hafi þrengst og hækkuð vaxtaálög leggist við aðhald peningastefnunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×