Skoðun

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður vorið 2009

Birkir Jón Jónsson skrifar
Birkir Jón Jónsson, Páll Magnússon og Sæunn Stefánsdóttir skrifa um Evrópumál

Miklir erfiðleikar blasa við í íslensku efnahagslífi nú um stundir og ljóst að fram undan eru vandasöm viðfangsefni fyrir almenning og atvinnulífið í landinu. Lúta þau að grundvallaratriðum hvers þjóðfélags, þ.e. hvernig unnt sé að tryggja atvinnu manna, halda fyrirtækjum gangandi og viðhalda og treysta velferð og samhjálp samfélagsins.

Af þeim sökum felast brýnir hagsmunir í því að íslenska þjóðin úrskurði sjálf um það í hvaða átt hún vilji að íslenskt samfélag þróist á næstu árum og áratugum. Ekki er unnt að eyða öllu meiri tíma í vangaveltur og karp um hvað kann og kann ekki að felast í þeim valkostum sem uppi eru varðandi gjaldmiðilinn og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Fólk og fyrirtæki líða á hverjum degi fyrir aðgerðaleysi og ákvarðanatökufælni.

Þjóðin þarf að fá að kveða upp sinn dóm um skipan mála í framtíðinni og hið eina rétta er að hún geri það í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hún vilji byggja á þeirri stöðu sem við búum við í dag eða hvort hefja eigi aðildar­viðræður við Evrópusambandið. Mikilvægt er að atkvæðagreiðslan verði óháð flokkspólitískum kosningum og fari því fram í síðasta lagi í maí 2009.

Um svo brýnt mál er að ræða að rétt er að þingmenn þjóðarinnar sýni þá ábyrgð og þver­pólitísku samstöðu að lyfta umræðunni upp úr þeim skotgrafarhernaði sem ríkt hefur liðin misseri og beiti sér fyrir því að faglegar stofnanir taki saman upplýsingar um kosti og galla aðildar sem í kjölfarið yrðu birtar þjóðinni.

Yfirgripsmikil vinna á vettvangi Framsóknarflokksins
páll magnússon
Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins síðastliðið vor kynnti formaður flokksins, Guðni Ágústsson, þá hugmynd að eina raunhæfa leiðin til að ná fram sátt í Evrópumálum væri sú að ganga til tvöfaldrar þjóðar­atkvæðagreiðslu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan varðaði það hvort landsmenn vildu yfirhöfuð að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið en síðari þjóðaratkvæðagreiðslan færi einungis fram ef þjóðin samþykkti að hefja slíkar viðræður og í henni yrði borinn undir þjóðina sá samningur sem yrði niðurstaða viðræðna við Evrópusambandið.

Þessi sáttaleið var samþykkt einróma á miðstjórnarfundinum. Hafa ber í huga að miðstjórn Framsóknarflokksins er ein æðsta eining flokksins og sú sem fer með umboð flokksins á milli flokksþinga og útfærir meginstefnu hans í landsmálum. Flokkurinn fylgir því heill og óskiptur þessari markverðu stefnu.

Hin skynsamlega stefna sem miðstjórn Framsóknar­flokksins samþykkti síðastliðið vor er framhald af yfirvegaðri og yfirgripsmikilli vinnu sem farið hefur fram innan flokksins undanfarin ár. Framsóknarflokkurinn hefur enda tekið ábyrga afstöðu í þessum málum og sinnt viðfangs­efninu af fullri alvöru til að vera búinn undir þær breytingar sem framtíðin kann að bera í skauti sér.

Segja má að stefnumörkun núverandi formanns sé rökrétt skref í framhaldi af vinnu undir formennsku forvera Guðna, þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Jóns Sigurðssonar, en í formannstíð þeirra störfuðu tvær Evrópunefndir á vegum flokksins sem fóru rækilega í saumana á hagsmunum, stöðu og horfum í samskiptum Íslendinga við önnur Evrópulönd, auk þess að móta samningsmarkmið Íslendinga, ef til aðildarviðræðna við Evrópusambandið kæmi.

Núverandi formaður Framsóknarflokksins hefur haldið vegferðinni áfram og beitt sér fyrir skipan nefndar sem hefur á liðnum mánuðum unnið ötullega að því að greina stöðuna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar og meta kosti og galla mismunandi leiða og valkosta í þeim efnum.

Niðurstaða gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins
Sæunn stefánsdóttir
Gjaldmiðilsnefnd Framsóknarflokksins skilaði niðurstöðu sinni í skýrsluformi síðastliðinn þriðjudag. Niðurstaða nefndarinnar er sú að Ísland standi fyrst og fremst frammi fyrir tveimur valkostum. Annaðhvort að viðhalda krónunni sem framtíðargjaldmiðli og þá með fjölbreyttari framkvæmd peningastefnunnar og stórefldum gjaldeyrisvarasjóði eða að taka upp evru sem gjaldmiðil með fullri aðild að peningamálastefnu Seðlabanka Evrópu. Síðari valkosturinn þýðir með öðrum orðum, eins og staðan er að flestra mati í dag, að upptaka evru yrði ekki fengin án aðildar að Evrópusambandinu.

Brýnt að fá úr því skorið hvar hagsmunirnir liggjaÞað er skoðun greinarhöfunda að í því efnahagsástandi og alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem Ísland býr við sé nauðsynlegt að fá hið fyrsta úr því skorið hvort íslenska þjóðin sé reiðubúin að láta hefja viðræður við Evrópusambandið með aðild Íslands í huga. Ef þjóðin verður því samþykk fæst úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, með aðildarviðræðum, hvaða markmiðum og ávinningi Ísland gæti náð með aðild að sambandi hinna 27 fullvalda Evrópuríkja. Ef þjóðin synjar slíkum viðræðum geta stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og almenningur einhent sér í það með fullri samstöðu allra aðila að þróa íslenskt samfélag og efnahagsumhverfi áfram út frá þeirri stöðu sem við blasir.

Aðeins með þessum hætti verður unnt að fá fram lýðræðislega niðurstöðu um þann grundvöll sem þjóðin gæti myndað nauðsynlega samstöðu um til að byggja upp öflugt og framsækið samfélag til langrar framtíðar.

Höfundar eru félagar í Framsóknarflokknum.
Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×