Viðskipti erlent

Afskriftir vegna undirmálslána eru orðnar 45.000 milljarðar kr.

Afskriftir fjármálastofnanna vegna undirmálslána og tengdum eignum eru orðnar ríflega 500 milljarðar dollara eða sem nemur 45.000 milljarða kr.

Þetta kemur fram í umfjöllun greiningar Kaupþings í Hálf fimm fréttum þeirra í dag. Þar segir ennfremur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf fyrr í ár út skýrslu þar sem þeir bjuggust við að þegar uppi væri staðið hafi afskriftir náð 1.000 milljörðum Bandaríkjadala eða sem svarar til ríflega 90.000 milljarða kr.

Samfara afskriftunum hefur lausafé horfið úr kerfinu. Einn mælikvarði á slíkt sé til dæmis að aðeins um 350 milljarðar dollara hafi safnast í nýtt hlutafé samanborið við 500 milljarða dollara afskriftir. Eigið fé hafi þannig þurrkast út fyrir 150 milljarða dala eða rúmlega 14.000 milljarða kr.

"Að teknu tilliti til gírunarhlutfalls eigin fjár í fjármálageiranum, sem er raunar mjög mismunandi eftir löndum og mörkuðum, eru heildaráhrifin mun meiri," segir í Hálf fimm fréttunum. "Sé t.d. miðað við hlutfallið hjá íslensku bönkunum (ca. 17,5 sem er raunar frekar lágt m.v. aðra banka í Evrópu) má áætla út frá þessum forsendum að um 2.500 milljarðar dollara hafi horfið úr fjármálakerfum heimsins. Tekið skal þó fram að þessar forsendur eru afar lauslega áætlaðar."

Talan 2.500 milljarðar dollara er um 225.000 milljarðar kr.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×