Viðskipti erlent

Gjaldeyrisforði SÍ hverfur á næsta ári að öðru óbreyttu

Gjaldeyrisforði Seðlabankans ætti að duga til innflutnings vöru og þjónustu fram yfir fyrsta fjórðung næsta árs að öðru óbreyttu, jafnvel þótt lítið sem ekkert innflæði komi á móti frá útfluttum vörum og þjónustu.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu en þar kemur fram að sökum þess að gjaldeyrismál landsins eru í miklum lamasessi sé gjaldeyrisforði SÍ nú notaður til að fjármagna innflutning til landsins. Og að til þessa dugi forðinn aðeins fram í apríl á næsta ári.

„Ríkisstjórnin vinnur nú að því að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans með stórfelldum lántökum svo bankinn hafi öflugt vopnabúr þegar krónunni verður fleytt að nýju. Á meðan það tefst, og gjaldeyrismál landsins eru í jafnmiklum lamasessi og nú er raunin, gengur smátt og smátt á gjaldeyrisforðann sem fyrir er," segir í Morgunkorninu.

„Mikil vanhöld virðast á því að útflutningstekjur skili sér á innlendan gjaldeyrismarkað, og hefur því komið til kasta Seðlabanka að leggja til gjaldeyri til innflutnings úr gjaldeyrisforðanum."

Brýnt er hins vegar að heimtur gjaldeyristekna inn í hagkerfið verði bættar sem allra fyrst, því afar varasamt er að stóla lengi á gjaldeyrisforðann til fjármögnunar innflutnings.

Sú töf sem orðin er á afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á aðstoð til Íslands og þeim lánum frá öðrum sem í kjölfarið fylgja hefur því margháttuð slæm áhrif.

Í fyrsta lagi tefur hún fyrir að lag komist á gjaldeyrismarkað og útflutningstekjur skili sér inn í hagkerfið þar sem margir útflytjendur virðast halda að sér höndum með flutning gjaldeyristekna inn í kerfið í þeirri miklu óvissu sem nú ríkir.

Í öðru lagi gengur hægt og sígandi á gjaldeyrisforðann, sem dregur úr slagkrafti Seðlabankans til að koma fótum undir krónuna þegar henni verður fleytt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×