Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á olíu fer hríðlækkandi

Heimsmarkaðsverð á olíu fer hríðlækkandi. Verð á Brent-olíu úr Norðursjó fór niður í 54 dollara á markaðinum í London í morgun og hefur ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2007.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að verð á hráolíu fór í gær niður fyrir 59 dali á markaði í New York, í fyrsta sinn í meira en 20 mánuði. Í morgun stóð hráolíutunnan í 58,45 bandaríkjadal. Verðið á Brent Norðursjávarolíu var hinsvegar komið niður í 54 dali í Kauphöllinni í London í morgun og hefur þá ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2007.

Lækkunina má rekja til gruns um að Alþjóðaorkustofnunin (IEA) muni skera niður spá sína um orkueftirspurn fyrir árið 2009 vegna versnandi hagvaxtarhorfa á heimsvísu. Alþjóðaorkustofnunin samhæfir orkustefnu 28 þróaðra ríkja og birtir stofnunin efnahagsspá sína í dag.

Verð á flestum hrávörum hefur lækkað mikið undanfarna tvo mánuði eftir mikla undangengna verðhækkun. Olían er þar ekki undanþegin. Í byrjun september kostaði hráolíutunnan tæplega helmingi meira en hún kostar í dag. Lækkandi hrávöruverð á heimsvísu hefur orðið til þess að draga úr verðbólguþrýstingi, sem hefur gert seðlabönkum auðveldara um vik að lækka stýrivexti sína til að bregðast við versnandi hagvaxtarhorfum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×