Viðskipti erlent

Barbie ber sigurorð af Bratz í dómsalnum

Bratz.
Bratz.

Leikfangaframleiðandinn Mattel vann málaferli gegn MGA fyrirtækinu sem framleiðir Bratz dúkkurnar vinsælu. Dómstóll í Kaliforníu úrskurðaði að hugmyndasmiðurinn að dúkkunum, Carter Bryant, hafi verið við störf hjá Mattel þegar hugmyndin að dúkkunum fæddist.

Dómurinn á eftir að úrskurða um skaðabætur handa Mattel en ljóst er að þær geta numið milljónum bandaríkjadala enda nemur hagnaður af sölu dúkkanna um fimm hundruð milljónum dala á ári. Það jafngildir vel á fjórða tug milljarða íslenskra króna.

Þá gæti farið svo að MGA þyrfti að hætta framleiðslu á dúkkunum en Mattel hefur fullyrt að Bratz dúkkurnar séu byggðar á hönnun Bryants frá því að hann var samningsbundinn Mattel. Bryant starfaði hjá Mattel frá 1995 til apríl 1998 og síðan aftur frá janúar 1999 til september árið 2000 og fullyrðir MGA að Bryant hafi fengið hugmyndina að dúkkunum á milli starfstímabilanna tveggja.

Hlutabréf í Mattel hækkuðu um 4,4% eftir að dómurinn féll en salan hjá þessu stærsta leikfangaframleiðenda heims, sem m.a. framleiðir Barbie dúkkurnar, hefur farið ört minnkandi undanfarin misseri. Sem dæmi má nefna að sala á Barbie dúkkum í Bandaríkjunum minnkaði um meira en fjórðung milli apríl og júní á þessu ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×