Viðskipti innlent

Enn sekkur Eimskip

Eimskip hefur lækkað mest allra fyrirtækja í Kauphöllinni það sem af er degi. Félagið lækkaði um 1,45 prósent við opnun markaða en þegar hefur liðið á daginn hefur gengi félagsins lækkað enn frekar, eða um 5,31 prósent. Síðustu fimm daga hefur félagið lækkað um tæp 34 prósent í Kauphöllinni, mest í gær, þegar félagið lækkaði um 16,5 prósent.

Í morgun voru bréf í Eimskipafélaginu sett á athugunarlista í Kauphöllinni. Þetta var gert í tengslum við skilyrði Kauphallarinnar fyrir töku hlutabréfa til viðskipta, vegna umtalsverðrar óvissu varðandi verðmyndun vegna hættu á ójafnræði meðal fjárfesta, líkt og sagði í tilkynningu.

Enn er verið að vinna að fjármögnun kaupa á XL Leisure Group en Eimskip er enn í ábyrgð fyrir 280 milljóna dala láni félagsins.

Eimskip seldi XL Leisure Group í október árið 2006 fyrir 450 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 30,6 milljarða íslenskra króna á þávirði. Félagið var þá leiguflugs- og ferðaþjónustuhluta Avion Group, nú Eimskipafélagsins.

XL Leisure er þriðja stærsta fyrirtæki í Bretlandi á sviði ferðaþjónustu. Fyrirtækið tapaði 24 milljónum punda á síðasta rekstrarári, en það jafngildir um 3,6 milljörðum íslenskra króna. Skuldir félagsins fóru úr 17 milljörðum í 31 milljarð íslenskra króna.

Halldór Kristmannsson hjá samskiptasviði Eimskips, segir að forsvarsmenn félagsins tjái sig ekki um málið að svo stöddu, en að áfram verði unnið að lausn þess.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×