Innlent

Fékk 300 þúsund króna sekt fyrir áfengisauglýsingu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Breki Logason, blaðamaður Vísis og fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Hér og nú, var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun til þess að greiða 300 þúsund króna sekt fyrir að birta áfengisauglýsingu í blaðinu árið 2006.

Breki sagði fyrir dómi að Hér og nú hafi verið gefið út sem fylgirit með DV og ritstjóri DV, Páll Baldvin Baldvinsson, verið ábyrgðarmaður að tímaritinu. Hann hafi sem ritstjóri séð um efnistök í blaðinu. Þá hafi hann skrifað greinar og tekið viðtöl. Einnig hafi hann setið fundi með öðrum sem ritað hafi greinar í blaðið.

Breki kvaðst hafa séð forsíðu og þær greinar sem birst hafi í blaðinu áður en það hafi farið í prentun, en þá hafi auglýsingar ekki verið komnar inn í blaðið. Þær kæmu alveg í lokin. Væri gert ráð fyrir rými fyrir auglýsingar á réttum stöðum. Sá starfsmaður sem hefði umbrot tímaritsins með hendi hefði það á sinni könnu. Þá auglýsingu sem um ræðir hafi ákærði ekki séð fyrr en hann hafi verið kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu. Þeir starfsmenn blaðsins sem séð hafi um að selja auglýsingar í blaðið hafi tekið ákvarðanir um allar auglýsingar í blaðinu.

Kvaðst Breki hafa verið meðvitaður um verkaskiptingu á milli sín og ábyrgðarmanns blaðsins. Hann hafi verið starfsmaður DV áður en hann hafi tekið að sér ritstjórastarf tímaritsins Hér og nú.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Breki beri, sem ritstjóri blaðsins, ábyrgð á birtingu auglýsingarinnar. Honum beri því að greiða 300 þúsund króna sekt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×