Viðskipti innlent

Vinna hafin að innleiðingu evrunnar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Evruspeglun í Kauphöllinni Nú hillir undir að viðskipti með hlutabréf í evrum fái hafist í Kauphöll Íslands með aðkomu finnska seðlabankans að greiðslu- og uppgjörskerfi. Myndin er samsett.
Evruspeglun í Kauphöllinni Nú hillir undir að viðskipti með hlutabréf í evrum fái hafist í Kauphöll Íslands með aðkomu finnska seðlabankans að greiðslu- og uppgjörskerfi. Myndin er samsett.
„Við vinnum í þessu með Seðlabanka Finnlands og þeir hafa komið hingað í mánuðinum og fundað með bönkunum,“ segir Einar Sigurjónsson, forstjóri Nasdaq/OMX Verðbréfaskráningar Íslands. „Ferlið er farið í gang og kauphallaraðilar þurfa að standa klárir á að sækja um hjá bankanum fyrir lok maí, og upp úr því verður hægt að fara í innleiðingu og prófanir.“

Einar segist gera ráð fyrir að hægt verði að hefja viðskipti með hlutabréf í evrum í haust. „Sjálfsagt verður það samt aldrei fyrr en á síðasta ársfjórðungi, því allt tekur þetta sinn tíma.“

Upphaflega áttu viðskipti með hlutabréf í evrum að hefjast 20. september í fyrra með umskráningu bréfa Straums-Burðaráss í þá mynt. Viku fyrir þann tíma gerði Seðlabanki Íslands hins vegar athugasemdir við fyrirkomulagið og taldi lagastoð vanta til þess að lokauppgjör hvers dags færi í gegn um stórgreiðslukerfi annars banka en Seðlabanka Íslands.

Á þessum tíma stóð til að Landsbanki Íslands annaðist uppgjörið til bráðabirgða þar til Seðlabanki Finnlands tæki við á þessu ári. Í Finnlandi vildu menn hafa ráðrúm til að ljúka við að innleiða nýtt stórgreiðslukerfi, svokallað Target2-uppgjörskerfi, áður en Kauphöll Íslands bættist við.

„Seðlabanki Finnlands tók Target2-kerfið upp í febrúar og luku þeirri innleiðingu í mars,“ segir Einar og vonar að snurða hlaupi ekki á þráðinn á ný. Seðlabanki Íslands er eftir sem áður umsagnaraðili yfir greiðslukerfum sem hér eru í notkun, enda gætu hnökrar í þeim ógnað fjármálastöðugleika.

„En þarna förum við í greiðslukerfi Seðlabanka Evrópu og allra seðlabanka sem nota evrur. Ég geri ekki ráð fyrir að miklar athugasemdir verði gerðar við það,“ segir Einar.

Þá er á borði viðskiptanefndar Alþingis frumvarp til breytinga á lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa, en þar er tekið á túlkunaratriðum þeim sem Seðlabanki Íslands benti á síðasta haust. Ágúst Ólafur Ágústsson þing­maður og formaður viðskiptanefndar gerir ráð fyrir að frumvarpið verði afgreitt úr nefndinni í næstu viku og fari þá til annarrar umræðu í þinginu.

„Við höfum kallað eftir umsögnum, þær hafa skilað sér að mestu og verið jákvæðar,“ segir hann og bætir við að stefnt sé að því að lagabreytingin nái fram að ganga fyrir þinglok. „Ég á ekki von á öðru en að það gerist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×