Innlent

Dómstólar ákveði sjálfir hvernig þeir kynna sig

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.

Það er dómstólanna að ákveða með hvaða hætti þeir kynna sig betur fyrir almenningi, að mati Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann teldi að dómarar mættu tjá sig meira um dómarastörfin á opinberum vettvangi til þess að fólk myndi skilja betur störf þeirra.

Eiríkur Tómasson lagaprófessor sagði svo í fréttum Stöðvar 2 í gær, að hann teldi koma til greina að dómarar réðu sér upplýsingafulltrúa. Þá vildi hann að í fjölmiðlum yrðu teknir upp dagskrárliðir þar sem fjallað yrði um réttarfar á Íslandi.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir á vefsíðu sinni að hann telji að dómstólaráð eigi að taka til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki sé ástæða fyrir það að efla fjölmiðlakynningu í þágu dómstólanna. Vísir spurði Björn hvernig hann teldi dómarar ættu að kynna sig í fjölmiðlum. Hann vildi ekki svara því hvort hann væri sammála sjónarmiðum Eiríks Tómassonar. „Þetta er málefni dómstólanna og ekki í verkahring mínum að segja þeim fyrir verkum," sagði Björn í tölvupóstsvari til Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×