Viðskipti erlent

Microsoft mætir erfiðleikum af æðruleysi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Steve Ballmer, búinn að setja upp hörkulegri svipinn og klár í slaginn.
Steve Ballmer, búinn að setja upp hörkulegri svipinn og klár í slaginn.

Hugbúnaðarrisinn Microsoft finnur fyrir breyttum tímum eins og aðrir og þar á bæ búast menn við að hægt verði á mannaráðningum á næstunni.

Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, lét það uppi á hluthafafundi í gær að sú stefna fyrirtækisins að draga úr ráðningum nýrra starfsmanna yrði í gildi fram yfir mitt ár 2009 hið minnsta. Microsoft notast ekki við almanaksárið sem fjárhagsár heldur nær fjárhagsár þess frá miðju sumri til jafnlengdar næsta árs og er því ekki óalgengt að rekstraráætlanir miðist við þann tíma.

Ballmer sagði á fundinum, sem haldinn var í Washington á sama tíma og stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fundaði þar í gær, að Microsoft hefði alls ekki í hyggju að hætta ráðningum algjörlega heldur yrðu þarfir hverrar deildar fyrir sig skoðaðar gaumgæfilega. Þá kom það engum á óvart þegar Ballmer sagði að Microsoft væri vel í stakk búið til að takast á við efnahagsleg átök og sterk fjárhagsstaða fyrirtækisins gerði því kleift að styrkja samkeppnisstöðu sína með auknum fjárfestingum á sviði rannsókna og þróunar.

Stjórnarformaðurinn Bill Gates var einnig á fundinum og sagði frá ýmsum tækninýjungum í stað þess að velta sér upp úr kreppuhjali. Hann kynnti þá ákvörðun sína að draga úr starfshlutfalli sínu en sló um leið á létta strengi og sagði að ef hann hætti alveg hjá Microsoft myndi hann samt aka þangað á morgnana af gömlum vana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×