Viðskipti innlent

Sólarkísilverksmiðja farin út af kortinu

Ólafur Áki Ragnarsson
Ólafur Áki Ragnarsson

„Margir þættir réðu þessari ákvörðun. Þar á meðal orkuöflun og verð, aðgangur að hæfu vinnuafli, verksmiðjustæðið og fleira. Staðan í stjórnmálum á Íslandi hefur hins vegar ekki verið neinn lykilþáttur í okkar ákvörðunum," segir Erik Thorsen, forstjóri norska stórfyrirtækisins REC (Renewable Energy Corporation).

REC hefur ákveðið að finna nýrri sólarkísilverksmiðju sinni stað í Quebec í Kanada. Um tíma stóð til að verksmiðjan yrði reist hér á landi, í sveitarfélaginu Ölfusi. Félagið átti einnig í viðræðum við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur um raforkaup.

„Það er ágætt hljóð í okkur, en það er mikið áfall að þetta skyldi ekki gerast," segir Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Orkuveita Reykjavíkur hafði tryggt raforku í fyrsta áfanga verksmiðjunnar. Hins vegar hefur verið óvissa um framhaldið, meðal annars vegna mismunandi skoðana meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur hverju sinni á því hvort reisa skuli Bitruvirkjun. Þetta telur Ólafur Áki að kunni að hafa haft áhrif á ákvörðun Norðmanna, ásamt því að Skipulagsstofnun hafi kveðið uppúr um að verksmiðjan skyldi í umhverfismat. Hann hafði þó ekki heyrt formlega í Norðmönnum um málið þegar Markaðurinn ræddi við hann.

Landsvirkjun hafði einnig rætt við REC um orku. „Þetta er bagalegt fyrir okkur en undirstrikar um leið hvað hátækniiðnaðurinn er eftirsóttur," segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins.

Fjallað er um málið í fjölmörgum kanadískum og alþjóðlegum miðlum. Fjárfesting REC í Kanada nemur sem svarar ríflega eitt hundrað milljörðum íslenskra króna. Stefnt er að því að verksmiðjan hefji framleiðslu í Quebec árið 2012, en hún kaupir raforku frá vatnsaflsvirkjunum.

REC hafði rætt við sveitarfélagið Ölfus um 120 hektara lóð undir verksmiðjuna. Hún hefði orðið 300 manna vinnustaður, þar af hefði þriðjungur verið háskólamenntaður. Byggingin tæki þrjú ár og um 500 manns fengju vinnu við hana.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.