Erlent

Raðmorðingja með 23 ára feril leitað

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Lögregla í Los Angeles leitar nú logandi ljósi að raðmorðingja sem grunaður er um að hafa minnst 11 mannslíf á samviskunni en fórnarlömbin eru flest vændiskonur. Morðin eru talin hafa átt sér stað á 23 ára tímabili og þykist lögregla þess fullviss að sami aðili standi að baki þeim. Sú vissa er studd lífsýnum sem fundist hafa á vettvangi og benda öll til eins og sama aðilans.

Síðasta morð er talið hafa verið framið í janúar 2007 og sýndi erfðaefni sem þar fannst á vettvangi þegar tengsl við fleiri mál. Ekki hefur þó tekist að finna samsvarandi sýni í gagnagrunni yfir dæmda afbrotamenn í Bandaríkjunum svo ólíklegt þykir að morðinginn eigi sér sakaferil, að minnsta kosti alvarlegan. Lögregla undrast þó langa tímaeyðu á einum stað sem gæti bent til þess að ódæðismaðurinn hafi setið í fangelsi eða horfið af vettvangi með öðrum hætti.

Ekki er útilokað að morðin teygi sig út fyrir Kaliforníu. Lögregla segir huga morðingjans sjúkan en bendir um leið á að öflug sönnunargögn þrengi hringinn hægt og rólega.

CNN greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×