Viðskipti innlent

Bakkavör kaupir matvælafyrirtæki í Hong Kong

MYND/Hari

Bakkavör Group hefur keypt 48 prósenta hlut í matvæla- og drykkjarvöruframleiðandanum Gastro Primo í Hong Kong, og á kauprétt að eftirstandandi hlutum í félaginu árið 2010. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir einnig að kaupverðið sé trúnaðarmál.

Gastro Primo sérhæfir sig í framleiðslu á hágæða matvælum og drykkjarföngum fyrir veitingahús og veisluþjónustur auk stórmarkaða í Hong Kong og Macau. Þannig framleiðir félagið tilbúna rétti, súpur, sósur, salöt, samlokur, niðurskorna ávexti og grænmeti, auk ávaxtasafa og hristinga.

Fyrrirtækið var stofnað árið 1990 og er með um 170 starfsmenn í Hong Kong og Macau. Velta félagsins árið 2007 nam rúmlega 770 milljónum króna.

„Það er ánægjulegt að tilkynna um áframhaldandi uppbyggingu Bakkavarar í Kína með fjárfestingu félagsins í Gastro Primo, en matvælamarkaðurinn í Hong Kong er einn sá þróaðasti í Suð-Austur Asíu. Gastro Primo er vel rekið fyrirtæki, með reynslumikla stjórnendur, traust viðskiptasambönd og góða möguleika á vexti í framtíðinni. Við sjáum tækifæri til samvinnu á milli Gastro Primo og fyrirtækja okkar í Kína sem mun styðja enn frekar við vöxt félagsins í Kína," er haft eftir Ágúst Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×