Viðskipti innlent

Aðeins 7,5 prósent seldust í útboði Skipta

Frekar takmarkaður áhugi var á kaupum á hlutafé í Skiptum hf. en aðeins 7,5 prósent af þeim 30 prósentum sem í boði voru seldust.

Almennu hlutafjárútboði á 30 prósenta hlut í Skiptum hf. er lokið. Með útboði og skráningu er efnt að fullu það samkomulag sem kaupendur félagsins gerðu við íslenska ríkið árið 2005 þegar fyrirtækið var einkavætt.

Í tilkynningu um málið segir að alls hafi 179 fjárfestar óskað eftir að kaupa 552.220.641 hluti í Skiptum eða sem nemur 7,49 prósentum af heildarhlutafé félagsins. Útboðsgengið var 6,64 krónur á hlut. Söluandvirðið nemur tæpum 3,7 miljörðum kr.

523.343.369 hlutum var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum að andvirði meira en 25 milljónir króna. 28.877.272 hlutum var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum að andvirði 100 þúsund til 25 milljónir króna.

Við ákvörðun endanlegs útboðsgengis og úthlutun til fjárfesta var fylgt þeim skilmálum sem gerð er grein fyrir í lýsingu Skipta frá 4. mars 2008.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta segir það mjög mikilvægt skref fyrir Skipti að ljúka útboðinu og verða í kjölfarið skráð á markað.

„Við fögnum því að fá nýja hluthafa í hluthafahópinn. Fjárfestar hafa sýnt félaginu góðan áhuga og ég vænti þess að þegar fram líða stundir muni þeim fjölga enn frekar. Boðnir voru til sölu þegar útgefnir hlutir og því hefur útboðið ekki áhrif á rekstur eða framtíðarhorfur félagsins. Að baki Skiptum stendur breiður hópur öflugra hluthafa." segir Brynjólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×