Skoðun

Fjölskyldur í forgang

Verð á nauðsynjum hækkar, launin lækka og atvinnuleysi knýr dyra. Langtímalán þenjast út um leið og verðgildi húsnæðis hríðfellur. Helmings hækkun stýrivaxta gerir horfurnar enn dekkri.

Þetta reikningsdæmi gengur ekki upp og ef ekkert verður að gert verða íbúðalán fljótlega komin langt upp fyrir íbúðaverð. Það er engin lausn að lengja í þessum lánum. Fólk hneppir sig ekki sjálfviljugt í ævilangan þrældóm til að borga af himinháum lánum með veði í verðlítilli eða óseljanlegri íbúð. Ungt fólk sem skuldar hlutfallslega mest og keypti í þenslu undanfarinna fimm ára, mun varla hafa annan kost í stöðunni en að lýsa sig gjaldþrota. Nóg verður samt fyrir þetta fólk að borga af skuldum ríkisins, flýi það ekki land.

Gjaldþrotum fjölskyldna mun fylgja enn meiri lækkun á verði fasteigna og mikil útlánatöp hjá lánveitendum; lífeyrissjóðum og ríkinu. Því hin veðsetta eign mun aðeins duga upp í hluta útlána.

Einnig má spyrja hvort verðtrygging við þessar aðstæður sé ekki að tryggja rangt verðgildi krónunnar, þann kaupmátt sem byggður var á sandi og hefur nú hrunið. Er eðlilegt að þeim kaupmætti sé viðhaldið í hluta hagkerfisins?

Er ekki skárra að frysta verðtryggingu lána tímabundið meðan gengisleiðréttingin á sér stað? Þannig rýrna útlánin vissulega, en þannig halda lánveitendur skuldurunum og þaki yfir þjóðinni. Hægt er að frysta verðtrygginguna við 4% sem eru yfirlýst þolmörk samkvæmt verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Annar möguleiki er að setja lög um að verðtrygging uppreiknist ekki sjálfkrafa um mánaðamót. Staðan verði svo metin yfir þriggja mánaða tímabil. Þá sjá menn betur hvert stefnir og geta betur fyrirséð afleiðingar verðtryggingar. Þá verður hægt að ákveða hvort og að hve miklu leyti skynsamlegt er að taka tillit til verðtryggingar.

Þriðji möguleikinn væri að breyta forsendum verðtryggingar: minnka vægi innfluttra vara og notast ekki við neyslukannanir úr góðærinu til að reikna út verðbólguna. Það verður að grípa til aðgerða núna áður en fjöldagjaldþrot heimila er staðreynd og áður en verðtryggingin nær að magna upp verðbólgubálið.

Höfundur er borgarfulltrúi.








Skoðun

Sjá meira


×