Viðskipti erlent

Auðmannafjölskyldan Merckle gæti truflað söluna á Actavis

Ein efnaðasta fjölskylda Þýskalands, Merckle, gæti truflað söluna á Actavis því fjölskyldan hyggst selja lyfjafyrirtæki sitt Ratiopharm GmbH. Fyrirtækið er umsvifamikið á samheitalyfjamarkaðinum í Evrópu og víðar eins og Actavis.

Greint er frá málinu á Bloomberg-fréttaveitunni sem tekur sérstaklega fram í umfjöllun sinni um áform Merckle fjölskyldunnar að salan á Ratiopharm myndi fara fram á sama tíma og Actavis er í sölu.

Ludwig Merckle forstöðumaður fjárfestingarsjóðs fjölskyldunnar segir í yfirlýsingu um málið að fjölskyldan sé að leita allra leiða til að minnka skuldir sínar með eignasölu og salan á Ratiopharm sé einn af kostunum í stöðunni.

Carsten Kunold greinandi hjá Merck Finck & Co. í Munich segir í samtali við Bloomberg að erfitt verði fyrir Merckle-fjölskylduna að selja Ratiopharm þar sem markaðsaðstæður séu ekki góðar í augnablikinu.

Vandamál Merckle stafa af því að sjóðir fjölskyldunnar tóku stóra skortstöðu í hlutabréfum Volkswagen fyrr í ár og brenndu sig illa á því eins og fjölmargir vogunarsjóðir.

Merckle veðjaði á að hlutabréfin myndu halda áfram að lækka í verði en það þveröfuga gerðist 26. október þegar Porsche tilkynnti að þeir hefðu aukið hlut sinn í VW upp í 75%. Við þetta fjórfölduðust hlutabréfin í verði á aðeins tveimur dögum á meðan Merckle og aðrir sjóðir reyndu í örvæntingu að losa sig úr stöðum sínum.

Ratiopharm var stofnað 1973 og var fyrsta samheitalyfjafyrirtæki Þýskalands. Starfsmenn þess nú er um 5.400 talsins og veltan á síðasta ári nam vel yfir 300 milljörðum kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×