Innlent

Dæmdir fyrir árás með rafstuðbyssu

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo menn til fangelsisvistar, sem er að mestu skilorðbundin, fyrir að hafa ráðist á þriðja mann og meðal annars veitt honum stuð með rafstuðbyssu.

Árásin átti sér stað í Garðinum í september 2006. Samkvæmt ákæru komu árásarmennirnir ásamt þriðja manni að heimili fórnarlambsins þar sem þeir töldu að fórnarlambið geymdi tvö mótorhjól sem hafði verið stolið. Ruddust þeir inn á heimili mannsins en þar var hann ekki heldur kona hans og tvær dætur.

Eftir að hafa náð sambandi við fórnarlambið í gegnum síma kom í ljós að það var úti í bílskúr við heimili sitt og gengu árásarmennirnir að skúrnum og brutu hann upp með sleggju. Síðan réðust þeir á manninn með höggum og fangbrögðum og beitti annar árásarmannanna rafstuðbyssu á fórnarlambið. Í þessum átökum hlaut fórnarlambið mar og rispur víða á líkamanum samkvæmt ákæru. Annar árásarmannanna var einnig ákærður fyrir að hafa flutt inn til landsins rafstuðbyssuna og haft hana í fórum sínum.

Út frá framburði vitna og mannanna sjálfra voru þeir sakfelldir en þriðji maðurinn sem var með þeim í för var sýknaður af ákæru um húsbrot þar sem ekki var talið sannað að hann hefði farið inn í hús fórnarlambsins.

Segir í dómnum að ekkert í málinu hafi komið fram sem sýni að fórnarlambið hafi átt aðild að þjófnaði á mótorhjólunum. „Ákærðu hafa haldið því fram að þeir hafi ekki haft annað í hyggju en að endurheimta hjólin með friðsamlegum hætti. Hvað sem þessu líður er ljóst að framganga þeirra varð í reynd með allt öðrum brag," segir í dómnum.

Árásarmennirnir tveir hafi gengið fram af miklu offorsi og hafi ekki skeytt neitt um það að ung börn húsráðenda yrðu vitni að ófyrirleitinni aðför. Var annar mannanna dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af fjóra skilorðsbundna, en hinn í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var rafstuðbyssan gerð upptæk með dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×