Viðskipti erlent

NIBC afskrifar 300 milljónir evra vegna undirmálslána

Eignarhaldsfélagið NIBC Holding, eigandi hollenska bankans NIBC, tilkynnti í gær að það hefði afskrifað 300 milljónir evra af verðbréfum tengdum bandarískum húsnæðislánum.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu og segir að þessi upphæð komi til viðbótar við fyrri afskriftir af samskonar eignum. Jafnframt tilkynnti félagið að það hefði gefið út 400 milljónir evra í nýju hlutafé á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en gaf ekki upp frekari upplýsingar varðandi hlutafjáraukninguna.

Í lok janúar á þessu ári hætti Kaupþing við að kaupa NIBC banka fyrir 3 milljarða evra vegna óstöðugleika á fjáramálamörkuðum. Í kjölfarið sagði NIBC að hluthafar þess myndu leggja fram 300 milljónir evra í hlutafé til stuðnings lánshæfiseinkunnum bankans sem matsfyrirtækið Fitch lækkað í desember.

Það eru fleiri en NIBC sem hafa farið flatt á verðbréfum tengdum bandarískum húsnæðislánum og má þar nefna að svissneski bankinn UBS afskrifaði um 19 milljarða Bandaríkjadala í fyrsta ársfjórðungi vegna slíkra lána og Deutche Bank hyggst afskrifa um 3,9 milljarða dala af lánasafni sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×