Innlent

Sjálfsagt að skoða starfsemi Kópavogsbrautar

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu. MYND/Hari

„Ef það eru einstaklingar að koma fram núna sem tjá sig um reynslu sem er erfið vegna einhverskonar ofbeldis finnst mér sjálfsagt að athuga það, rétt eins og gert var með Breiðavík," segir Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá þremur mönnum sem voru vistaðir sem börn og unglingar á upptökuheimilinu á Kópavogsbraut 9. Þeir telja mikilvægt að starfsemin þar verði rannsökuð rétt eins og Breiðavík því einangrun og barsmíðar hafi þar viðgengist.

Í Breiðavíkurskýrslunni svokölluðu er meðal annars fjallað um upptökuheimilið á Kópavogsbraut. Bragi segir að sú nefnd sem sett var á laggirnar í tengslum við Breiðuvík hafi lagaheimildir til þess að skoða heimilið.

„Miðað við þær fréttir og yfirlýsingar sem komu þegar nefndin skilaði af sér býst ég við að það sé í undirbúningi að skoða fleiri heimili. Hvernig það verður gert eða hver forgangsröðunin verður er eitthvað sem örugglega er verið að skoða."

Bragi bendir þó á að starfsemin á Kópavogsbraut 9 hafi verið öðruvísi en sú sem var á Breiðavík.

„Þetta var neyðarvistun og krakkar voru ekki vistaðir þarna lengi. Algengt var að unglingar væru þarna í allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur í lengsta lagi. Starfsemin var hugsuð svipað og lokaða deildin á Stuðlum er í dag," segir Bragi sem vann greinargerð um heimilið í Breiðavíkurskýrslunni.

Hann segir að samkvæmt lögum megi taka krakka sem eru að stefna eigin velferð í voða úr umferð og setja á lokaða deild þá samkvæmt beiðni barnaverndarnefndar eða forsjáraðila.

„Á þessum tíma var hlutverk heimilisins þarna að aðstoða börn sem höfðu misst stjórn á eigin lífi. Húsakynnin voru lokuð í þeim skilningi að ekki var hægt að ganga þar út. Það er hinsvegar allt önnur ella hvað gerðist innan veggja þess."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×