Viðskipti erlent

Verð á gulli komst í 1.000 dollara

Heimsmarkaðsverð á gulli komst í 1000 dollara únsan í fyrsta sinn í sögunni og reiknað er með að verðið fari hækkandi í náinni framtíð.

Það er gömul saga og ný að þegar dollarinn er veikur hækkar verð á gulli og öðrum góðmálmum. Og dollarinn hefur ekki verið veikari gagnvart evrunni síðan þeim gjaldmiðli var komið á fót. Um stund í gær fór dollarinn niður fyrir 100 jena markið en það hefur ekki gerst síðan 1995.

Gullið fór yfir 1.000 dollara markið um stund á mörkuðunum síðdegis í gær en verðið lækkaði síðan aðeins og var í tæplega 994 dollurum við lokun markaðanna.

Frá því um áramótin síðustu hefur verð á gulli hækkað um 20% en á síðasta ári hækkaði það um 32%. Sérfræðingar segja að gullverðið muni haldast hátt svo lengi sem dollarinn er veikur og áhyggjur séu af ástandi efnahagsmála í Bandaríkjunum.

Samkvæmt fregnum frá Danmörku hefur þetta háa gullverð leitt til þess að almenningur kemur í röðum til gullsmiða í landinu og selur þeim gamla giftingarhringi og skartgripi. Gullsmiðirnir borga nú um 1000 kr. fyrir hvert gramm af 14 karata gulli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×