Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlit samþykkir samruna Nýherja og TM Software

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Nýherja og TM Software sem gekk í gegn í janúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.

Þar segir að markmiðið með kaupunum sé að styrkja stöðu Nýherja-samstæðunnar í rekstrarþjónustu og hýsingu og þróun sérhæfðra hugbúnaðarlausna fyrir fyrirtæki. TM Software er móðurfélag Skyggnis, Origo, Vigor, eMR og IPT.

„Með TM Software innanborðs verður Nýherji enn betur í stakk búinn að veita viðskiptavinum heildarþjónustu í upplýsingatækni því til verður eitt fremsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins. Kaupin eru þar af leiðandi mikilvægur áfangi í þróun Nýherja og treystir enn frekar stöðu samstæðunnar á upplýsingatæknimarkaði," segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja í tilkynningu.

Eftir kaupin á TM Software eru yfir 730 starfmenn hjá samstæðu Nýherja í um 20 dótturfélögum á Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×