Innlent

Gætum minnkað útblástur koltvísýrings með skattalækkun á eldsneyti

Hægt væri að minnka útblástur koltvísýrings um allt að tuttugu prósent ef allur bílafloti Íslendinga væri knúinn díselolíu. Í langflestum Evrópuríkjum er skattur á díselolíu lægri en á bensíni til að hvetja fólk til að aka á slíkum bílum.

Tölur frá Orkusetrinu sýna að bílafloti Íslendinga blæs um 350 milljónum tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið ár hvert. Hægt væri að minnka þennan útblástur um 20 prósent væri bílaflotinn eingöngu knúinn díselolíu. Tökum dæmi: Tveir samskonar jeppar, annan díselknúinn og hinn knúinn bensíni eru eknir 15 þúsund kílómetra á ári. Útblástur koltvísýrings frá bensínbílnum er 5,1 tonn á ári. Til að kolefninsbinda það þarf rúmlega 2500 tré. Díselbíllinni blæs hins vegar frá sér fjórum tonnum af koltvísýringi ári eða 1100 kílóum minna en bensínjeppinn. Til að kolefnisbinda það þarf um 2000 tré.

Hér á landi innheimtir ríkissjóður nánast sömu upphæð af hverjum seldum bensínlítra og dísellítra eða um 70 krónur. Aukin eftirspurn á heimsmarkaði eftir díselolíu hefur gert það að verkum að hún er orðin dýrari en bensín. FÍB hefur hvatt til þess að stjórnvöld lækki skatta á díselolíu og hvetji þanning fólk til að kaupa frekar díselbíla. Runólfur Ólafsson framkvæmdarstjóri FÍB segir að þar sem díselbílar séu dýrari en bensínbílar og eldsneytið nú orðið dýrara sé hvati til að kaupa díselbíla lítill hér á landi. Í langflestum Evrópuríkjum sé díselolían ódýrari en bensín til þess að hvetja fólk til að aka um á díselknúnum bílum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×