Innlent

Byggingarnefndin brást hlutverki sínu

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerir alvarlegar athugasemdir við byggingu stúkunnar í Laugardalnum sem var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og KSÍ.

Í skýrslu sem unnin hefur verið um málið kemur meðal annars fram að eftirlit með verkinu hafi ekki verið sem skyldi, formlegri upplýsingagjöf um framvindu verkefnisins var ábótavant og ekki tryggt að leitað hafi verið umboðs borgarinnar fyrir meiriháttar viðbótum við framkvæmdina.

Þá er byggingarnefndin sem skipuð var vegna málsins harðlega gagnrýnd og sagt að hún hafi brugðist hlutverki sínu. „Ljóst er að forsvarsmenn KSÍ voru á framkvæmdatímanum í samskiptum við embættismenn borgarinnar með erindi sem þeir hefðu átt að vísa til bygginganefndar." Í byggingarnefndinni sátu, fyrir hönd kjörinna fulltrúa, Dagur B. Eggertsson og Björn Ingi Hrafnsson sem tók við af Degi þegar nýr meirihluti tók við 2006.

Nefndin fundaði aðeins tvisvar, en aldrei eftir að Björn Ingi tók sæti. Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður KSÍ var formaður nefndarinnar og Geir Þorsteinsson, núverandi formaður, sat einnig í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×